Samþykktir
fyrir hlutafélagið Rannsókna- og háskólanet Íslands
I. kafli Nafn, heimili og tilgangur félagsins
1. gr.
Félagið er hlutafélag og er heiti þess Rannsókna- og háskólanet
Íslands hf.(skammstafað RHnet).
2. gr.
Heimilisfang félagsins er í Tæknigarði, Dunhaga 5, 107 Reykjavík.
3. gr.
Tilgangur félagsins er eftirfarandi:
-
að annast alþjóðlega tölvunetsþjónustu, byggða á Internet stöðlum,
einkum fyrir rannsóknastofnanir og háskóla,
-
að eiga hlutdeild að alþjóðlegum netum rannsóknastofnana og háskóla,
-
að stuðla að sem hagkvæmastri uppbyggingu tölvunets á landsvísu fyrir
rannsóknastofnanir og háskóla,
-
að þróa lausnir varðandi tölvunetssamskipti og sinna skyldri
starfsemi,
-
að eiga og reka búnað til tölvunetssamskipta og
-
að vera samskiptaaðili við NORDUnet fyrir hönd Háskóla Íslands, sem er
hluthafi í NORDUnet A/S, Danmörku.
Hluthafar gera ekki arðsemiskröfu og verði hagnaður af rekstri
félagsins skal honum varið í samræmi við það markmið að efla möguleika
íslenska háskóla- og rannsóknarsamfélagsins til samskipta, bæði inn á
við og út á við.
II. kafli Hlutafé, hlutahafaskrá, forkaupsréttur, o.fl.
4. gr.
Hlutafé félagsins er að nafnvirði 53.850.000,- kr. Hver hlutur er að
fjárhæð ein króna eða margfeldi þar af. Hlutir skulu hljóða á nafn.
Allir hlutir hafa sama atkvæðavægi.
5. gr.
Heimilt er að hækka hlutafé félagsins með ályktun hluthafafundar og
þarf til sama magn atkvæða og til breytinga á samþykktum þessum.
Hluthafar skulu hafa forgangsrétt að öllum nýjum hlutum í hlutfalli
við skráða hlutafjáreign sína.
6. gr.
Stjórn félagsins skal halda hlutaskrá. Í hlutaskrá skulu skráð nöfn,
kennitölur og heimilisföng eigenda hluta í félaginu. Hlutir skulu
skráðir í númeraröð. Við eigendaskipti á hlut skal skrá nafn nýs
eiganda í hlutaskrá. Félagið skal krefjast gagna sem staðfesta framsal
á hlut þegar óskað er skráningar.
Eigendaskipti að hlutum í félaginu öðlast ekki gildi gagnvart því fyrr
en skráning í hlutaskrá hefur farið fram. Félaginu er þegar í stað
skylt að skrá nýjan hluthafa í hlutaskrá er tilskilin gögn um
eignarrétt nýs hluthafa liggja fyrir.
Hluthafar skulu hafa aðgang að hluthafaskrá.
7. gr.
Hluti í félaginu má selja og veðsetja nema annað leiði af lögum og
samþykktum þessum.
Enginn getur gerst hluthafi í félaginu nema að hann uppfylli skilyrði
reglna um tengingu og notkun RHnets og með samþykki stjórnar. Bera
skal fyrirhuguð eigendaskipti undir stjórnina með skriflegu erindi.
Samþykki stjórnin ekki eigendaskiptin skal félagið verða við kröfu
hluthafa um innlausn hina fölu hluta, enda rúmist innlausnin innan
þeirra marka sem lög og fyrirmæli hluthafafundar kveða á um.
Við eigendaskipti eiga stofnendur félagsins, sem þá eru meðal
hluthafa, forkaupsrétt að hlutum í félaginu. Tilkynna skal stjórn
félagsins skriflega um eigendaskipti. Í slíkri tilkynningu skal
greina: nafn seljanda og kaupanda, nafnverð hlutar, kaupverð,
greiðsluskilmála og annað sem máli kann að skipta. Stjórn skal
tafarlaust senda stofnendum í hópi hluthafa tilkynninguna. Hafa þessir
hluthafar tvo mánuði frá því tilkynning barst stjórn til að ákveða,
hvort þeir hyggjast nýta forkaupsréttinn.
Forkaupsréttarhafi skal greiða kaupverðið innan þriggja mánaða frá því
kaupin voru ákveðin. Ef kveðið er á um greiðsluskilmála í tilboði skal
forkaupsréttarhafi greiða kaupverð í samræmi við þá.
8. gr.
Hluthafi ber ekki ábyrgð á skuldbindingum félagsins fram yfir hlut
sinn í félaginu.
III. kafli Eigin hlutir félagsins
9. gr.
Félagið má ekki eiga meira en 10% af eigin hlutafé. Eignist félagið
meira en 10% af eigin hlutafé skal það selt innan sex mánaða. Reynist
ekki unnt að selja það hlutafé sem umfram er skal hlutafé félagsins
lækkað.
Óheimilt er að neyta atkvæðisréttar fyrir þá hluti sem félagið á
sjálft. Félagið má eigi veita hluthöfum eða öðrum lán með veði í
hlutum í félaginu.
IV. kafli Hluthafafundur
10. gr.
Hluthafafundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
11. gr.
Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok júní ár hvert.
Aukafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu hluthafa sem
ráða a.m. k. 1/10 hluta hlutafjár í félaginu. Skal krafan vera
skrifleg og fundarefni tilgreint. Skal fundur þá boðaður innan 14 daga
frá því krafan berst.
12. gr.
Stjórn félagsins boðar til hluthafafundar með tilkynningu til hvers
hluthafa eða auglýsingu í víðlesnu dagblaði eða á sambærilegan hátt.
Aðalfund skal boða með minnst 7 daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið
í fundarboði.
Hluthafafundur er löglegur ef hann er löglega boðaður og hann sækja
hluthafar eða umboðsmenn þeirra sem hafa yfir að ráða helmingi
hlutafjár í félaginu hið minnsta. Verði fundur ólögmætur vegna
annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan mánaðar með
sjö daga fyrirvara og verður sá fundur lögmætur til að ræða þau mál
sem ræða átti á fyrri fundinum ef hann sækir einhver hluthafi.
Formaður stjórnar stýrir hluthafafundum eða skipar til þess sérstakan
fundarstjóra. Hann skipar einnig fundarritara. Fundarstjóri sker úr
ágreiningi um þau lagaatriði sem upp kunna að koma á fundinum.
13. gr.
Eitt atkvæði fylgir hverri krónu í hlutafé. Hluthafar geta með
skriflegu umboði veitt umboðsmönnum heimild til að sækja hluthafafund
og fara með atkvæðisrétt sinn. Umboðið skal vera skriflegt og dagsett.
Á hlutahafafundi ræður afl atkvæða úrslitum mála nema öðruvísi sé mælt
fyrir um í lögum eða samþykktum þessum.
14. gr.
Á aðalfundi skal taka eftirfarandi mál til meðferðar:
- Skýrslu stjórnar um starfsemi félagsins á síðastliðnu starfsári.
- Efnahagsreikning og rekstrarreikning félagsins fyrir liðið
starfsár. Skulu þeir ásamt athugasemdum endurskoðanda lagðir fram til
samþykktar.
- Kosning stjórnar.
- Kosning endurskoðanda.
- Ákvörðun um greiðslur til stjórnarmanna fyrir stjórnarstörf á
starfsárinu.
- Önnur mál löglega upp borin.
15. gr.
Fundargerðarbók skal haldin og í hana skráð í meginatriðum það sem
gerist á hluthafafundum. Fundargerðin skal lesin upp í fundarlok óski
einhver hluthafa eftir því.
V. kafli Félagsstjórn
16. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og skulu þeir kjörnir á
aðalfundi ár hvert. Þar skal einnig kjósa jafnmarga til vara.
Stjórnarkjör skal vera skriflegt óski einhver hluthafa eftir því. Ef
atkvæði eru jöfn ræður hlutkesti. Á fyrsta fundi hverrar nýkjörinnar
stjórnar skal ákveða hvaða varamann skuli boða í forföllum hvers
aðalmanns í stjórn og gildir sú ákvörðun til næsta aðalfundar.
Ef hluthafar sem ráða yfir a. m. k. 1/5 hlutfjár krefjast þess skal
margfeldis- eða hlutfallskosningu beitt við kjör stjórnarmanna. Krafa
um slíka kosningu skal hafa borist formanni stjórnar eigi síður en
fimm sólarhringum fyrir aðalfund.
17. gr.
Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund.
Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Verði atkvæði jöfn ræður atkvæði
formanns úrslitum.
18. gr.
Stjórn skiptir með sér verkum og skal hún á fyrsta fundi sínum kjósa
formann, varaformann og ritara. Formaður boðar til stjórnarfunda. Hver
stjórnarmaður getur krafist þess að boðað verði til stjórnarfundar.
Sama gildir um framkvæmdastjóra.
Stjórn er heimilt að setja sér starfsreglur þar sem nánar er kveðið á
um framkvæmd starfa hennar.
19. gr.
Stjórn félags fer með æðsta vald í málefnum þess á milli
hluthafafunda. Megin skyldustörf félagsstjórnar eru:
- Að ráða framkvæmdastjóra, ákveða starfskjör hans og starfslýsingu.
- Að hafa stöðugt og ítarlegt eftirlit með öllum rekstri félagsins.
Sjá um að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi.
Sérstaklega skal hún annast um að nægilegt eftirlit sé haft með
bókhaldi og meðferð fjármuna félagsins.
- Að koma fram fyrir hönd félagsins fyrir dómstólum og stjórnvöldum.
- Að ráða aðra helstu starfsmenn félagsins að tillögu
framkvæmdastjóra.
- Að skera úr um ágreining sem upp kann að koma milli
framkvæmdastjóra og annarra starfsmanna.
- Að ráða hver eða hverjir skuli skuldbinda félagið.
- Að gera samninga við aðra aðila um rekstur og starfsemi félagsins
svo sem þjónustusamninga.
- Að gera rekstraráætlanir fyrir hvert starfsár og ákveða verð vegna
tenginga og þjónustu.
- Að gera breytingar á reglum um tengingu og notkun RHnets.
- Að ráða fram úr öðrum málum, sem hún telur nauðsyn á hverju sinni.
20. gr.
Stjórnarmenn skulu hafa aðgang að öllum bókum og skjölum félagsins.
21. gr.
Meirihluti stjórnar ritar firma þess.
VI. kafli Framkvæmdastjóri
22. gr.
Stjórn félagsins ræður framkvæmdastjóra. Heimilt er að ráða
stjórnarmann framkvæmdastjóra og tekur varamaður þá sæti hans í
stjórn.
Framkvæmdastjóri skal hafa prókúruumboð fyrir félagið.
Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri félagsins
og kemur fram fyrir þess hönd í öllum málum sem varða daglegan
rekstur. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana, sem eru
óvenjulegar eða meiriháttar.
Framkvæmdastjóri sér um reikningshald og ráðningu starfsmanna. Honum
ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum og skoðunarmönnum allar
upplýsingar um rekstur félagins sem þeir kunna að óska eftir.
23. gr.
Framkvæmdastjóri skal hlýða öllum fyrirmælum stjórnar.
VII. kafli Reikningar og endurskoðun
24. gr.
Á aðalfundi félagsins skal kjósa einn endurskoðanda. Skal
endurskoðandinn rannsaka allt reikningshald og reikninga félagsins
fyrir hvert starfsár og leggja niðurstöður sínar fyrir aðalfund.
Endurskoðandi má hvorki vera stjórnarmaður né starfsmaður félagsins.
25. gr.
Starfsár og reikningsár er almanaksárið. Stjórn skal hafa lokið gerð
ársreikninga eigi síðar en einum mánuði fyrir aðalfund. Reikningurinn
skal þá afhentur endurskoðanda félagsins til endurskoðunar.
Endurskoðandi skal hafa lokið endurskoðun ársreikninga eigi síðar en
tveimur vikum fyrir aðalfund. Skal hann að því loknu senda þá til
stjórnar ásamt athugasemdum.
Í síðasta lagi viku fyrir aðalfund skal stjórn félagsins hafa samið
svör sín við athugasemdum endurskoðanda og skulu þau ásamt
ársreikningi og athugasemdum endurskoðanda liggja frammi á starfsstöð
félagsins fyrir hluthafa fram að aðalfundi.
VIII. kafli Breytingar á samþykktum félagsins
26. gr.
Samþykktum þessum má breyta á hluthafafundi. 2/3 hluta greiddra
atkvæða þarf til að breyta samþykktum sem og samþykki hluthafa sem
ráða yfir 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á
hluthafafundinum.
IX. kafli Slit félagsins
27. gr.
Með tillögur um slit og skipti á félaginu skal fara sem um breytingar
á samþykktum þessum sbr. þó 110. hlutafélagalaga.
Hluthafafundur skal kjósa tvo menn í skilanefnd sem fer með slit
félagsins í samræmi við ákvæði laga.
X. kafli Almenn ákvæði
28. gr.
Þar sem ákvæði samþykkta þessara segja ekki til um hvernig með skuli
farið fer það eftir ákvæðum laga um hlutafélög og öðrum lögum eftir
því sem við getur átt.
Reykjavík, 24. janúar 2001